Leikurinn og styrking sjálfsmyndar

Frjálsi leikurinn
Innan veggja leikskólans er það leikurinn sem er í öndvegi, leikurinn er leið barnsins til þroska. Nám barnanna fer fram í gegnum leikinn. Börn eru í eðli sínu virk og það er hlutverk leikskólans að sjá til þess að þau geti fengið að njóta sín. Leikjum má skipta í fjóra flokka sem eru: a) Skynfæra og hreyfileikir b) Sköpunar og byggingaleikir, c) Þykjustu- og hlutverkaleikir, d) Regluleikir eða leikir með leikreglum. Kennsla á öllum námssviðum fer fram í gegnum leikinn. Í Pálmholti er mikil áhersla lögð á leikinn sem reyna á að barnið skapi sjálft t.d. atburðarás (hlutverkaleikir), föndur, kubbaleiki, spil og úti- og hreyfileikir. Hlutverk starfsfólks er að fylgjast með, skrá og gera atferlisathuganir ásamt því að taka þátt í leiknum. Við leitumst við að hafa sem fjölbreyttastan efnivið í boði. Val er undirbúið ,,kerfi” í frjálsa leiknum sem stuðlar að auknu sjálfstæði barnanna og möguleika fyrir þau til að ákveða hvað þau vilja gera og með hverjum þau vilja starfa. Valkerfið byggir á þeirri hugmynd að barnið læri af eigin áhugahvöt. Með því að börnin velji sjálf og eru hvött til að taka ábyrgð á eigin vali trúum við því að þau verði sjálfstæðari, virkari og ánægðari einstaklingar. Hægt er að hafa val fyrir alla eða hverja deild fyrir sig.

Uppbygging sterkrar sjálfsmyndar, Stig af stigi.
Möguleikar barna á að öðlast sterka sjálfsmynd felast að miklu leyti í því hvernig svörun þau fá við öllum sínum gjörðum og verkum. Einnig þurfa þau að fá tækifæri til skapandi myndlistar og annarra verkefna sem reyna á sköpunarmátt og tjáningu. Til að efla félags– og tilfinningaþroska barnanna er verið að nota kennsluefnið Stig af stigi. Það stuðlar að því að börnin læri að sýna viðurkennda hegðun og að setja orð á tilfinningar sínar sem er einn liður í að læra að þekkja sjálfan sig og styrkja eigin sjálfsmynd.
Leikurinn er lífstjáning, NÁM OG STARF.

© 2016 - 2019 Karellen