Leikskólinn Pálmholt v/Þingvallastræti
Aðalsímanúmer: 4626602
netfang: palmholt@akureyri.is

Leikskólinn Pálmholt er skóli sem varð til við sameiningu leikskólanna Pálmholts, og Flúða haustið 2012 og er húsnæði þeirra sundurgreint eftir staðsetningu í landslaginu þ.e. efra hús og neðra hús. Skólinn heitir Pálmholt eftir æskuheimili kvenfélags- og framfarakonunnar frú Gunnhildar Ryel sem gaf lóðina fyrir barnaheimili árið 1946.

Alls eru 5 deildir í leikskólanum, 3 deildir í neðra húsi og 2 deildir í efra húsi. Starfsmannaaðstaða er í lausum kennslustofum við bæði húsin.

Deildir leikskólans eru aldursskiptar, yngstu börnin eru í efra húsinu og eldri börnin í neðra húsinu en það fer eftir hvernig aldur innritast hverju sinni hvernig nákvæmlega skiptingin er, reynt er að hafa aldursskiptar deildir og hafa góða samvinnu á milli deilda og húsa svo að aldursblöndun verði annað slagið t.d. með því að börnin fari í heimsóknir á milli húsa, hver hópur á vinahóp á annarri deildí hinu húsinu og starfsmenn samræma vinnu þannig að leikskólinn vinnur sem ein heild.

Lögð er áhersla á leikinn því sú reynsla sem barnið öðlast í gegnum leik er vænlegasta námsleiðin. Þetta samræmist kenningum Lev Vygotsky sem sagði að allar athafnir sem barnið upplifir í félagslegu samhengi verði að innri reynslu og kunnáttu. Einnig er framfarastefna John Dewey höfð til hliðsjónar en höfuðáhersla hans var að virkja athafnaþörf barnsins og vekja áhuga þess.
Unnið er með alla námsþætti gegnum leik og sköpun og leitast við að virkja sjálfsprottinn áhuga barnanna. Börnin eru hvött til sjálfshjálpar og sjálfstæðis með það að markmiði að efla sjálfsmynd þeirra og sjálfstraust.

Lögð er áhersla á skriftar, -lestrar og stærðfræði hvetjandi umhverfi. Börnin kynnast bókum, sögum, þulum og ljóðum. Þau læra að hlusta, segja frá, njóta sagnahefðarinnar og fá tækifæri til lestrar, umræðu og stuðning til þess að öðlast færni við lestur og ritun, einnig hvetjum við börnin til að vinna þrautir og fynna lausnir með skapandi og fjölbreyttum hætti.

Umhverfismennt og umhverfisvernd er stór þáttur í faglegu starfi skólans. Við vinnum í anda Grænfána og kennum markvisst umhverfismennt

Skólinn vinnur samkvæmt SMT-styðjandi skólafærni en markmið með henni er að skapa gott andrúmsloft í skólanum og tryggja öryggi og velferð nemenda og starfsfólks. Lögð er áhersla á að koma í veg fyrir og draga úr óæskilegri hegðun nemenda með því að kenna og þjálfa félagsfærni, gefa jákvæðri hegðun gaum með markvissum hætti og samræma viðbrögð starfsfólks gagnvart nemendum sem sýna neikvæða hegðun.

Mikil áhersla er lögð á hlýlegan og glaðlegan staðblæ leikskólans þar sem persónuleg og uppbyggileg samskipti starfsmanna, nemenda og foreldra eru höfð að leiðarljósi. Nokkrum sinnum á ári er foreldrum boðið í sérstakar foreldraheimsóknir en þess utan eru foreldrar ávallt velkomnir í leikskólann.

Foreldraráð hefur verið virkt frá haustinu 2008 og foreldrafélag í áratugi. Pálmholt á farsæl samskipti við Lundarskóla sem er grunnskólinn í hverfinu.

© 2016 - 2019 Karellen